Þegar ég hóf störf á fasteignasölu 2003 þá var þetta ansi einfalt. Fólk fór í bankann og fékk útprentað greiðslumat að það mætti kaupa fyrir 15.000.000. Engir fyrirvarar og ekkert smátt letur. Það var líka meginregla að fólk var tilbúið með greiðslumat áður en það gerði tilboð í fasteign. Á rúmum 20 árum hefur margt breyst og á einhverjum tímapunkti hættu bankarnir að greiðslumeta fólk og þeim var sagt að gera tilboð og svo myndu þeir greiðslumeta.
Ávinningurinn var enginn fyrir viðskiptavini þeirra. Fólk eyddi miklum tíma í að skoða fasteignir, gera tilboð og fá það jafnvel samþykkt eingöngu til að bankinn hafnaði þeim um lántöku. Eitthvað sem hefði mátt fyrirbyggja ef greiðslumatið hefði legið fyrir. Stundum munaði ekki miklu. Stundum hefðir þú mátt kaupa fyrir 60.000.000 en var hafnað með 63.000.000.
Greiðslumötin í dag eru stútfull af allskonar varnöglum. Ég skoðaði greiðslumat frá einum viðskiptabanka um daginn. Þar kom fram að viðkomandi mætti vera með greiðslubyrði upp á 450.000. Hvað þýðir það? Það kemur ekkert fram hvernig lán hann má taka eða hversu hátt.
Svo komu allir varnaglarnir. Niðurstaða þessi veitir vísbendingu... upplýsingarnar eru án allrar ábyrgðar bankans... Eingöngu er um áætlun að ræða... Ekki öruggt að niðurstaða þessi endurspegli raunverulega greiðslugetu umsækjanda... Ekki er um lánsloforð að ræða... Bankinn getur nýtt þessar upplýsingar um umsókn um íbúðarlán... Ekki hefur verið litið til lánareglna bankans...
Það er ákveðið afrek að hafa svona marga varnagla í einu plaggi. Þegar fólk er komið með samþykkt tilboð þá þarf bankinn hvort sem er að framkvæma “raunverulegt” greiðslumat. Ég verð að viðurkenna að ég næ bara ekki hvers vegna það er ekki hægt að gera formlegt greiðslumat án varnagla fyrir sína viðskiptavini. Í raun er hægt að gera miklu betur.
Með því að vinna meiri forvinnu þá getur bankinn gefið út lánsloforð upp á ákveðna krónutölu og síðan lofað að afgreiða nýtt lánað hámarki 3 dögum eftir samþykki tilboðs. Með þessu er hægt að stytta fyrirvarann um greiðslumat og nýtt lán úr 3 vikum í 3 daga.
Ég fæddist sama ár og menn fóru til tunglsins. Kona skildi ætla að það væri komin tækni sem myndi gera bönkunum kleift að greiðslumeta án fyrirvara. Hvað finnst þér?
Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.
asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402