Núna bendir allt til þess að við séum hægt og rólega að sigla inn í lækkunarferli á stýrivöxtum. Það þýðir að fleiri kaupendur standast greiðslumat fyrir eign og eiga auðveldara með að kaupa stærri eign en fyrir nokkrum mánuðum. Ef þú ert ákveðinn í að kaupa fasteign á næstu mánuðum þá myndi ég fara að skoða mín mál mjög alvarlega.
Ég myndi byrja á því að fá staðfest greiðslumat þar sem það gerir þig alltaf betri kaupanda ef þú getur framvísað loforði frá fjármálastofnum um að þú ráðir við að kaupa þessa eign. Ef þú átt eftir að selja þá myndi ég ráðleggja þér að selja fyrst og kaupa svo þar sem seljendur eru orðnir langþreyttir á því að festast inn í keðjum sem tekur jafnvel marga mánuði að vinda ofan af og oft slitnar keðjan þegar ekki er hægt að selja síðustu eignina.
Ef þú ert í þeirri stöðu að geta alls ekki selt fyrst þá er lykilatriði að vera tilbúin með þína eign í sölu, búið að taka myndir, búið að gera söluyfirlitið og það eina sem fasteignasalinn þinn á eftir að gera er að ýta á send á fasteignavefina. Þú verður alltaf besti kaupandinn ef þú þarft ekki að gera fyrirvara og þá aukast líkurnar á því að þú getir jafnvel boðið eignina aðeins niður ef seljandinn veit að það er hægt að ganga hratt og vel frá sölunni. Þegar þú átt eftir að kaupa og selja getur munað mörgum milljónum á því hvað þú færð endanlega í vasann ef þú selur fyrst og kaupir svo.
Nýjasta vaxtalækkunin núna í mars gefur fyrirheit um að frekari lækkanir séu framundan þannig að ég myndi ráðleggja öllum sem eru í fasteignahugleiðingum að fara að skoða sín mál að alvöru frekar en að bíða eftir næstu vaxtalækkunum. Því jafnvel þó að þú takir lán á hærri vöxtum þá bendir allt til þess að verðin hækki þegar vextir lækki og það er alltaf hægt að endurfjármagna lánið seinna og lækka þannig greiðslubyrðina.
Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.
asdis@husaskjol.is - Sími: 863 0402