Þetta er líklega ein algengasta spurningin sem ég sé í dag. Þarna er sambýlisfólk að velta upp hvort að það sé eðlilegt að skiptingin sé alltaf 50% þegar aðilar hafa mishá laun og stundum er staðan í lok mánaðar þannig að annar aðilinn rekur sig á núlli og jafnvel í mínus á meðan hinn aðilinn á jafnvel hundruði þúsunda í afgang.
Auðvitað má fólk skipta sínum fjármálum eins og það vill en það er samt ótrúlega algengt að launalægri aðilinn er síðan sá sem sér að mestu um 3ju vaktina enda á lægri launum og því “eðlilegt” að hann sjái að mestu um heimilið og börnin. Hins vegar er þetta heimilisstúss alltaf ólaunað enda vita allir að það er lítið álag og eintóm gleði sem fylgir því að vera heima með 2-3 lítil börn og þurfa líka að elda, þrífa og þvo þvotta á meðan makinn byggir upp starfsframann.
Þetta er samtal sem allir þurfa að taka en ef það á að deila öllum kostnaði við heimilisrekstur 50% þá að sjálfsögðu þarf að deila vinnunni við heimilið líka 50% þannig að launalægri makinn hafi þá tök á því að fá sér aukavinnu til að eiga ofan í sig og á. Launahærri makinn gæti líka greitt þeim sem sér um 3ju vaktina eðlilegt endurgjald fyrir þá vinnu eða finnst einhverjum eðlilegt að framlag til heimilis sé eingöngu mælt í krónum og aurum.
Annað sem fólk þarf að hugsa til er hvernig munu lífeyrisgreiðslurnar þeirra líta út. Ef annar makinn er með umtalsvert hærri laun en leggur samt jafnmikið í krónum til heimilsins og sá sem er launalægri þá er hann líka að leggja miklu meira inn í sinn lífeyrissjóð þar sem hann er á hærri launum. Hann er með hærri séreignasparnað og hann er mögulega líka með miklu hærri einkasparnað.
Hvað ef eitthvað kemur upp á, mun hann lána hinum makanum pening til að eiga ofan í sig og á?
Það er eitt þegar fólk er að byrja að búa saman og veit ekkert hvernig sambúðin mun ganga en þegar fólk hefur búið saman í mörg ár og jafnvel komin börn í spilið þá þarf að taka samtalið. Eruð þið meðleigjendur og viljið hafa allt aðskilið eða viljið þið byggja upp sameigilegt líf óháð krónum og aurum?
Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.
asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402