fimmtudagur 13.02.2025

5 punktar til að hámarka söluverð fasteignar

Það eru margir sem vilja fara í miklar endurbætur fyrir sölu til að fá hærra verð fyrir eignina. Dýrar framkvæmdir eins og að taka baðherbergi í gegn skilar sér yfirleitt ekki í hærra verði heldur verður eignin sölulegri.

Þrif: Vel þrifin fasteign tekur vel á móti kaupendum. Vond lykt, ryk, óhreint tau gera eignina meira óaðlaðandi fyrir kaupendur og þetta eru atriði sem er auðvelt að hafa í lagi.

Tiltekt: Er líklega ódýrasta leiðin til að hámarka söluverð fasteignarinnar. Oft virka rýmin minni en þau eru þar sem það er mikið af stórum húsgögnum sem taka plássið. Kaupendur þurfa að sjá sig inn í eigninni sem getur verið erfitt ef það er dót alls staðar.

Smá viðhald: Að laga leka krana og festa gólflista skilar hlutfallslega miklu meira til seljanda heldur en að fara í dýrar endurbætur eins og baðherbergi þar sem smáviðhald sem situr á hakanum bendir oft til þess að stærri hlutir sem sjást ekki hafi líka setið á hakanum. Stundum þarf að mála einn vegg sérstaklega ef krakkarnir hafa notað hann fyrir listræna sköpun.

Góð lýsing: Það getur borgað sig að yfirfara lýsingu og passa að allar ljósaperur séu í lagi sérstaklega þegar við skoðum fasteignir á vetrarmánuðum. Kaupendur vilja sjá hvernig eignin lítur út og það getur verið erfitt þegar birtan er ekki nægjanleg.

Stílisering: Við segjum gjarnan glöggt er gests augað og að fá stílista til að yfirfara heimilið fyrir myndatöku og sýningar getur margborgað sig. Það er mikilvægt að heimilið skarti sínu fegursta og taki vel á móti væntanlegum kaupendum.

Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402



Aðrar færslur