fimmtudagur 27.04.2023

Láttu launagreiðandann borga íbúðina þína. 

Allir launþegar frá 18 ára aldri geta nýtt sér séreignasparnað. Þetta er í raun viðbótarlaunahækkun og virkar þannig að launþegi leggur fyrir 2%-4% af launum sínum í séreignasparnað og atvinnurekandinn leggur til mótframlag sem er ekki hluti af núverandi launum heldur viðbót. Síðustu ár hafa allir íbúðareigendur með íbúðalán getað tekið út hluta af sínum séreignasparnaði skattfrjálst og nýtt til að greiða inn á íbúðalánin sín. 

Fyrstu kaupendur geta líka tekið út séreignasparnaðinn sinn og nýtt sem hluta af útborgun við fyrstu kaup. 

Helstu skilyrði eru að: 

Viðkomandi þarf að eiga amk 30% í íbúðinni.

Viðkomandi þarf að sækja um úrræðið innan 12 mánaða frá undirritun kaupsamnings.

Viðkomandi sé að kaupa sína fyrstu íbúð EÐA hafi ekki átt íbúðarhúsnæði á Íslandi síðustu 5 ár.

Það er því mjög mikilvægt fyrir alla sem hafa náð 18 ár aldri að nýta sér þetta úrræði. Það eru hinsvegar ekki allir sjóðir sem bjóða upp á að fyrstu kaupendur geti tekið út fyrir útborgun þannig að ég myndi kanna vel áður en skrifað er undir samning um séreignasparnað hvort að það séu hömlur á úttekt við íbúðakaup. Einnig má þetta vera að hámarki í 10 ár þannig að það er ekki alltaf hægt að taka út alla upphæðina ef þú ert búinn að greiða í séreignasjóð í meira en 10 ár. Þannig að áður en þú gerir tilboð í þína fyrstu íbúð vertu búinn að kynna þér vel allar reglur og hömlur. T.d. færðu séreignasparnaðinn ekki greiddan út fyrr en búið er að þinglýsa kaupsamningi og því þarf alltaf að gera ráð fyrir að nota hann í lokagreiðslu en ekki kaupsamningsgreiðsluna. Það tekur einnig alltaf nokkrar vikur að fá hann útgreiddan þannig að það er mikilvægt að passa upp á tímalínuna.

Óháð því hvort að þú sért að fara að kaupa þína fyrstu íbúð eða ekki þá mæli ég eindregið með því að nýta sér þessa launahækkun og kíkja á vefsíður lífeyrissjóða og banka og reikna út hvað þetta gæti gert í krónum og aurum við starfslok. Mitt ráð kíktu á þetta ekki seinna en í dag.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402Aðrar færslur