fimmtudagur 08.06.2023

Er hægt að forðast nauðungarsölu?

Nauðungarsala er ferli sem tekur töluverðan tíma. Við getum öll lent í vandræðum og það sem skiptir höfuðmáli er að bregðast hratt við.

Oft er hægt að semja við kröfuhafa og því fyrr sem það er gert því auðveldara er það og mun minni kostnaður, s.s. dráttarvextir og lögfræðikostnaður safnast upp.

Eignir hafa hækkað gífurlega mikið á síðustu árum og oft er eignin mun meira virði en eigandinn reiknar með.

Um leið og málin stefna í óefni þá myndi ég byrja á því að fá verðmat hjá löggiltum fasteignasala og sjá hvers virði eignin er og skoða á móti hvað heildarskuldirnar eru. 

Ef lausnin er að selja eignina þá getur fasteignasalinn þinn haft samband við alla kröfuhafa og sett upp endurgreiðsluplan. Mjög oft er hægt að fella niður einhvern kostnað gegn því að heildarskuldin verði greidd upp við sölu. Jafnvel þó að þú sért komin í lokauppboð þá er hægt að bregðast við.

Á mínum 20 ára ferli hef ég komið að mörgum sölum sem voru komnar í nauðungarsöluferli. Í verstu tilfellunum þá kom fólk út á sléttu eftir að allur kostnaður var greiddur upp en í bestu tilfellunum átti fólk tugi milljóna í eigninni þegar hún var seld á frjálsum markaði. 

Munurinn á því að því að selja á frjálsum markaði eða að eignin fari á uppboð er að á frjálsum markaði vinnur fasteignasalinn þinn að því markmiði að hámarka verðmæti þinnar eignar á meðan uppboðið er bara til að duga fyrir kröfum.

Ekki stinga hausnum í sandinn þó að ástandið sé gífurlega erfitt akkúrat núna. Flestir fasteignasalar bjóða upp á frítt og skuldbindingalaust verðmat sem dugar til að átta sig gróflega á stöðunni og ef best er að selja þá sest fasteignasalinn þinn niður með þér og gerir plan fyrir bestu mögulegu leiðina í núverandi stöðu.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402Aðrar færslur