Fólk er að byrja að búa saman og annar aðilinn á fasteign sem hinn flytur inn í. Það er auðvitað ekki til neitt eitt svar við þessu þar sem aðilinn sem á ekki fasteign þarf auðvitað að búa einhvers staðar og greiddi væntanlega leigu á gamla staðnum.
Það er mjög eðlilegt þegar fólk er að byrja að búa saman að allir passi sitt og vilji sjá hvernig sambúðin gengur. Hins vegar langar mig að benda á að það þurfa allir að gæta hagsmuna sinna og ótrúlega algengt er að fólk flytji saman, eignist jafnvel börn og búi alltaf saman í íbúðinni sem makinn á einn.
10 árum seinna slítur fólk sambandinu og ef það er ekki gift þá gengur aðilinn sem á ekki íbúðina út með ekkert og hinn situr eftir með íbúðina sem eignalausi makinn hefur jafnvel greitt af húsnæðislánunum, tekið þátt í viðhaldi og séð um reksturinn.
Algengt fyrirkomulag er að makinn sem á eignina greiðir af eigninni og hinn sér “bara” um matarinnkaup og börnin, borgar leikskólagjöldin og kaupir jóla-og afmælisgjafir og þess háttar “smotterý”. 10 árum síðar þegar sambandið endar þá vaknar þessi eignalausi upp við vondan draum að hann á ekki neitt á meðan makinn er búinn að margfalda eignina sína og er í góðum málum.
Ef þetta væri ég þá myndi ég alltaf vilja skipta rekstrinum á heimilinu en ég myndi ekki koma nálægt neinu sem snýr að íbúðinni, ekki greiða af lánum, ekki greiða viðhaldið, ekki greiða framkvæmdir nema það yrði tryggt að smátt og smátt fengi ég eignarhlut í fasteigninni.
Þetta snýst nefnilega ekki bara um skilnað þar sem oft er gott samkomulag og fólk skilur í góðu, hins vegar ef makinn sem er skráður fyrir eigninni deyr þá erfa börnin ykkar hann og ef þið eigið ekki börn þá erfa foreldrar og systkini fasteignina sem þú ert jafnvel búinn að búa í síðustu 10 árin og þú sást um að endurnýja eldhúsið og baðið þar sem þú varst launahærri.
Í upphafi skildi endinn skoða og ef þú ert að flytja inn til aðila sem á eign gerið þá plan hvernig þið sjáið fyrir ykkur stöðuna eftir 3 ár, 5 ár eða 10 ár. Ekki vakna upp við vondan draum þegar það er of seint að grípa til aðgerða.
Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.
asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402