Nóvember 2021 - Aukið peningalegt aðhald framundan

Húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1,2% í september sem þýðir að árshækkunartakturinn er kominn upp í 16,6%. Undirritaður bíður því enn eftir að væntingar um minni hækkanir raungerist. Þrátt fyrir að 1,2% mánaðarhækkun sé minna en undanfarna mánuði er það helmingi meiri hækkun en meðalmánaðarhækkun undanfarin 7 ár.

Heimildir: Þjóðskrá Íslands og greiningardeild Húsaskjóls

Þó að verðhækkanir séu áfram umfram væntingar þá eru teikn á lofti sem benda til að aðeins sé farið að hægja á. Sem dæmi þá er meðalsölutími fasteigna á höfuðborgarsvæðinu hættur að styttast og hlutfall íbúða sem seljast á yfirverði heldur áfram að lækka. Rúmlega 660 kaupsamningar voru undirritaðir á höfuðborgarsvæðinu í september sem er þriðjungs samdráttur m.v. í fyrra. Erfitt er að meta hvort að aukið peningalegt aðhald sé farið að draga úr kaupáhuga þar sem helsti flöskuhálsinn nú um mundir virðist vera að það eru virkilega fáar eignir til sölu. Aðeins 480 fjölbýilsíbúðir eru til sölu á höfuðborgarsvæðinu núna samanborið við 1.800 í maí 2020 sem er 73% samdráttur.

Þegar stýrivextir voru hækkaðir í 1,5% 6. október síðastliðinn kusu tveir af fimm nefndarmönnum með 50 punkta hækkun í stað 25 eins og varð raunin og því ljóst að tæpt stóð að vextir yrðu hækkaðir meira en raun bar vitni. Ný hagspá Landsbankans gerir ráð fyrir að stýrivextir verði komnir upp í 4,25% undir lok árs 2023 en óhætt er að gera ráð fyrir að peningalegt aðhald eigi eftir að aukast nokkuð næstu tvö árin. Samhliða því væntir Greiningardeild Húsaskjóls þess að árshækkunartakturinn muni taka að lækka. Ef litið er á kranavísitöluna segir hún svipaða sögu og talning Samtaka iðnaðarins. Útlit er fyrir að fjöldi kranaskoðana muni aukast um 20% í ár sem bendir til að verið sé að byrja á fleiri íbúðum. Það leiðir þá til aukins framboðs eftir 1-2 ár.

Heimildir: Vinnueftirlitið og greiningardeild Húsaskjóls

Hagvísar Seðlabankans sýna að raunvöxtur skulda heimilanna er kominn upp í 6,8% á ársgrundvelli sem styður enn frekar við þá sýn að framundan sé aukið peningalegt aðhald, mögulega í formi sértækra aðgerða ásamt vaxtahækkunum. Yfirboðapartýið gæti því verið farið að styttast í annan endann. Þar að auki gæti útlit fyrir aukið framboð í pípunum róað kaupendur enn frekar. Þetta ætti að kæla markaðinn og framundan væntir undirritaður minni verðhækkana en undanfarið.

Halldór Kári Sigurðarson Hagfræðingur Húsaskjóls