Húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1,4% í júní og þar með er árshækkunartakturinn kominn upp í 16%. Þessi hækkun er vel í takt við væntingar Greiningardeildar Húsaskjóls en áhugavert verður að sjá hvort hækkunartakturinn gefur eftir á næstu mánuðum líkt og spá Húsaskjóls gerir ráð fyrir.
Bráðabirgðatölur Þjóðskrár sýna að um 730 kaupsamningar hafi verið undirritaðar á höfuðborgarsvæðinu í júní sem er 28% aukning milli ára en það er minnsta aukning milli ára undanfarna 10 mánuði. Því má velta fyrir sér hvort yfirvofandi vaxtahækkanir og miklar verðhækkanir séu farnar að bitna á áhuga kaupenda.
Ef litið er á verðþróunina út frá hverfum má sjá að fermetraverð hefur hækkað mest í Mosfellsbæ og Grafarvogi ef júní síðastliðinn er borinn saman við meðalfermetraverð síðasta árs. Hækkunin í Mosfellsbæ skýrist þó af viðskiptum með nýbyggingar á meðan að meginþorri þeirra eigna sem voru viðskipti með í Grafarvoginum var byggður vel fyrir aldamótin.
Að mati undirritaðs mun framþróun húsnæðisverðs til skamms tíma sem áður ráðast af vöxtum, útlánavilja og framþróun heimsfaraldursins. Næsta vaxtaákvörðun Seðlabankans verður tekin 25. ágúst en heimilin eru býsna næm fyrir vaxtahækkunum sökum aukins vægis óverðtryggðra lána á breytilegum vöxtum og aukinnar skuldsetningar. Í september má svo vænta nýrrar talningar Samtaka iðnaðarins sem varpar ljósi á það framboð sem er í pípunum og hvers má vænta á húsnæðismarkaðnum til milli langs tíma.
Halldór Kári Sigurðarson Hagfræðingur Húsaskjóls.