Húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,6% í febrúar svo árshækkunartakturinn helst óbreyttur í 7,3%. Veltan var 31% meiri en í febrúar í fyrra en það hefur aldrei verið jafn mikil velta á fyrstu tveimur mánuðum ársins eins langt og gögnin ná aftur. Þar er meðtalið árið 2007 en veltan var 19% meiri í byrjun þessa árs en þá.
Í nýlegri greiningu Hagfræðideildar Landsbankans er fjallað um að fjöldi íbúða á íbúa á landinu hafi vaxið undanfarið og því sé ólíklegt að mikill skortur sé á húsnæði. Undirritaður hefur aðra sýn á markaðinn. Það er vissulega rétt að sögulega hafa aldrei komið jafn margar íbúðir inn á markaðinn og í fyrra.
Það byggir hins vegar á byggingarákvörðunum sem voru teknar í uppsveiflu árið 2018 og það sem meira er, þrátt fyrir metframboð er ekki að sjá að það hafi verið offramboð af nýbyggingum. Nýbyggingar sem voru byggðar og seldar árið 2020 í Reykjavík seldust nefnilega á 7% hærra verði en íbúðir sem voru byggðar og seldar þar árið 2019. Þar af leiðandi má segja að kaupendur hafi haft góða lyst á þessu aukna framboði.
Samkvæmt nýjust skýrslu HMS hefur meðalsölutími íbúða á höfuðborgarsvæðinu aldrei verið styttri og innan við þúsund íbúðir eru á sölu samanborið við 2.200 í maí síðastliðnum. Almennar verðhækkanir, mikil velta, stuttur sölutími og fáar eignir til sölu eru allt vísbendingar um húsnæðisskort þrátt fyrir að fjöldi íbúða á mann hafi aðeins hækkað í fyrra. Þar að auki bendir nýjasta talning Samtaka iðnaðarins til þess að þó nokkuð muni draga úr framboðinu á næstu árum og voru íbúðir í byggingu núna í mars 15% færri en í september í fyrra. Efnahagsástandið og óvissan sem faraldurinn skapar hefur síðan leitt til þess að ekki er verið að byrja á nóg af nýjum íbúðum. Þetta endurspeglast í fáum íbúðum á fyrri byggingarstigum og Samtök iðnaðarins tóku framboðsspá sína fyrir 2022 niður um tæplega 20% milli ára.
Eins og fyrsta grafið sýnir vel á húsnæðismarkaðurinn á Íslandi það til að vera býsna sveiflukenndur. Nú er útlit fyrir að framboð nýbygginga á höfuðborgarsvæðinu muni minnka næstu tvö árin þrátt fyrir þó nokkurn eftirspurnarþrýsting. Út frá hefðbundinni húsnæðismarkaðssveiflu ættu verðhækkanir að vera í lágmarki núna þegar framboðið er sem mest. Styrkur markaðarins í þessu umhverfi bendir því til að minnkandi framboð gæti leitt til ójafnvægis á markaðnum. Ákvarðanir byggingaraðila á þessu ári munu ráða miklu þar um en þær stýra gróflega framboðinu árið 2023. Það er því vissulega hætta á húsnæðisskorti á höfuðborgarsvæðinu og útlit fyrir áframhaldandi seljendamarkað á næstu mánuðum.
Halldór Kári Sigurðarson Hagfræðingur S: 856-6933 Netfang: halldork15@gmail.co