Húsnæðismarkaðurinn hefur reynst þrautseigari en margir bjuggust við en húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,8% í ágúst og er árstakturinn kominn upp í 5,2% og hefur ekki verið hærri síðan í janúar 2019.
Ef litið er á verðþróun eftir hverfum má sjá að mesta hækkunin í ágúst átti sér stað í norðvestur hluta Kópavogs en meðalfermetraverð þinglýstra kaupsamninga þar var 11% hærra en að meðaltali í fyrra. Að sama skapi hafa úthverfin, Hafnarfjörður, Mosfellsbær og Garðabær hækkað þó nokkuð.
Það sem hefur hvað helst stutt við markaðinn eru vaxtalækkanir og vilji bankanna til lánveitinga fyrir íbúðarhúsnæði. Þessi þróun mun skapa verðbólguþrýsting en of snemmt er að segja til um hvort hún muni hafa áhrif á vaxtaákvarðanir á næstu misserum.
Ég tel að lántökuvilji almennings ráðist af miklu ef ekki mestu leyti af greiðslubyrðinni. Stýrivextir Seðlabankans eru nú 3,5% stigum lægri en í maí í fyrra og það hefur mikil áhrif á greiðslubyrðina. Tökum sem dæmi heimili með 30 milljón króna óverðtryggt jafngreiðslulán til 30 ára. Vaxtaálag bankanna er breytilegt og útlánavextir fylgja ekki stýrivöxtum að öllu leyti en gefum okkur til einföldunar að viðkomandi heimili hafi verið að greiða 6% vexti en greiði nú aðeins 3% vexti. Það myndi þýða að viðkomandi heimili gæti aukið skuldir sínar um 43% eða upp í tæplega 43 milljónir króna og haft sömu greiðslubyrði og fyrir vaxtalækkunina.
Þessi þróun endurspeglast í því að bankarnir hafa lánað meira til heimilanna á fyrstu 7 mánuðum ársins en allt árið 2019. Almenningur sækir í breytilega vexti sem er jákvætt fyrir virkni peningastefnunnar en gæti leitt til neikvæðari áhrifa vaxtahækkana á húsnæðisverð en áður.
Halldór Kári Sigurðarson Hagfræðingur Húsaskjóls