Mars 2021 - Ótímabærar fregnir af kólnun húsnæðismarkaðarins

Húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,1% í janúar sem leiðir til þess að árshækkunartakturinn lækkaði úr 7,7% niður í 7,3%. Veltan á húsnæðismarkaðnum dróst talsvert saman milli mánaða og aðeins 584 kaupsamningar voru undirritaðir samanborið við 983 í veltumesta mánuðinum í fyrra.

Heimildir: Þjóðskrá og greiningardeild Húsaskjóls

Þýðir minni velta og lítil verðhækkun að farið sé að hægja á markaðnum? Nei, þegar betur er að gáð skýrist minni velta einfaldlega af árstíðasveiflu. Veltan hefur aldrei verið meiri í janúar eins langt og gögnin ná aftur (2006) en veltan var 64% meiri en í meðaldesembermánuðinum síðan árið 2006. Fullyrðingar um að farið sé að hægja á húsnæðismarkaðnum eru því án nokkurs vafa ótímabærar.

Heimildir: Þjóðskrá og greiningardeild Húsaskjóls

Ef litið er á verðþróun eftir hverfum bendir verðsjá Þjóðskrár til að fermetraverð sé að hækka mest í Árbæ og Hafnarfirði en minnst í miðbænum og Mosfellsbæ.

Heimildir: Verðsjá Þjóðskrár

Í janúar voru að jafnaði þúsund íbúðir til sölu á hverjum degi á höfuðborgarsvæðinu sem er helmings fækkun frá því í janúar í fyrra. Þetta er býsna sterk vísbending um framboðsskort sem er til þess fallinn að setja þrýsting á verðhækkanir. En nú hefur fasteignaverð hækkað mikið undanfarið, er ekki ólíklegt að það muni hækka meira? Árshækkun húsnæðisverðs að raunvirði stendur nú í 2,1% en hún hefur ekki verið yfir meðallagi síðan í apríl 2018. Miðaða við allt það fé sem hefur verið dælt inn á markaðinn í gegnum bankakerfið undanfarið er óhætt að segja að verðhækkanir hafi verið hóflegar síðan jafnvægi komst á markaðinn árið 2018.

Heimildir: Þjóðskrá íslands, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Húsaskjóls.

Miðað við þá eignaverðbólgu sem hefur verið ríkjandi á verðbréfamörkuðum er ljóst að undanfarnar húsnæðisverðshækkanir hafa verið býsna hóflegar. Horft fram á við mun framboðsskortur, lágir vextir, rúm lausafjárstaða, ásókn í ávöxtun og fólksfjölgun að mati undirritaðs áfram styðja við markaðinn. Á móti kemur að atvinnuleysi er enn að stíga og fór upp í 12,8% í janúar. Þar að auki hefur mikil ásókn heimilanna í breytilega vexti gert markaðinn viðkvæman fyrir vaxtahækkunum. Heilt yfir virðist þó vera nokkuð meiri þrýstingur til verðhækkana en lækkana.