miðvikudagur 03.04.2019

Sanngjarnt verð selur eignina

Sanngjarnt verð selur eignina.

Seljendur ættu að verðleggja eignir sínar á markaðsvirði vilji þeir selja eignina hratt og vel. Sé eignin verðlögð á markaðsvirði seljast þær oft á einni til tveimur vikum.  Fasteignasalar gefa raunhæft verðmat en stundum vill seljandinn prófa hærra verð þar sem honum liggur ekkert á að selja og vill prófa markaðinn aðeins.  Það er hins vegar mun árangursríkara að setja rétt verð á eignina strax í upphafi þar sem þá selst hún yfirleitt hraðar í stað þess að láta hana liggja á söluskrá, jafnvel í marga mánuði.  Það er betra fyrir seljandann því þá vilja fleiri skoða eignina.  Það er líka betra fyrir kaupandann því hann er fljótari að ákveða sig ef hann sér eign sem er á sanngjörnu verði.  Ef verðið er sanngjarnt, þá koma fleiri að skoða og meiri líkur á því að hún seljist hraðar og jafnvel á betra verði.

Markaðurinn er í jafnvægi

Markaðurinn í dag er í jafnvægi.  Fyrir nokkrum árum þegar allt seldist strax þá var allt í lagi að prófa aðeins verðið, ef hún seldist ekki strax þá hækkaði markaðurinn það hratt að verðið var yfirleitt orðið rétt eftir nokkrar vikur.  Núna er markaðurinn eðlilegur, kaupendur geta skoðað eignir í ró og næði og þurfa ekki að stökka til og kaupa eignina á fyrsta degi.  Þeir geta komið aftur og skoðað.

Hvað er yfirverðlögð eign?

Ég fæ oft seljendur sem segja, mér liggur ekkert á, mig langar að prófa hærra verð, fólk býður þá bara aðeins lægra.  Þetta er hins vegar ekki rétt.  Kaupendur nenna hreinlega ekki að skoða eignir sem eru kannski 10% yfirverðlagðar og fáir eru tilbúnir að gera mjög lág tilboð þar sem þeir vilja hvorki eyða sínum tíma í að skoða þannig eignir né móðga seljendur með því að koma með dónatilboð.  Ef seljandinn er ekki sáttur við verðmat fasteignasala getur oft getur verið skynsamlegt að fá 2-3 fasteignasala til að meta eignina áður en hún fer á sölu til að sjá hvaða verðbil er rétt. 

Hvað er rétt verð á fasteign?

Verðlagning er alltaf vandmeðfarin, hvað er rétt verð á fasteign og hversu miklu máli skiptir að setja rétt verð á hana.  Stutta svarið er að, rétt verðlögð eign selst alltaf hraðar og yfirleitt á betra verði hvort sem við erum á kaupenda- eða seljandamarkaði.  Það er vegna þess að þú færð bara eitt tækifæri til að koma inn í fyrsta skiptið með eignina þína, bara eitt tækifæri til að heilla í fyrsta skipti, svona svipað og að fara á stefnumót.  Auk þess að um leið og eignin liggur lengi á netinu þá minnkar einfaldlega spenna kaupenda fyrir henni.    Málið er einfalt, kaupendur í dag hafa mjög mikla verðvitund, þeir eru stundum búnir að vera að leita að réttu eigninni í marga mánuði og hafa skoðað allar eignir sem hafa komið í sölu af þinni tegund og á þínu svæði, þeir vita því upp á hár hvers virði eignin er. 

 

 

 

3 leiðir til að finna rétt verð.

Við hjá Húsaskjóli notum 3 breytur til að finna rétta verðið.  Við skoðum hvað eignin sem á að selja var keypt á síðast og skoðum hvernig markaðurinn hefur breyst og hvað hún myndi seljast á í dag.  Við skoðum hvað sambærilegar eignir hafa verið að seljast á og hvað er sett á sambærilegar eignir í dag.  Síðan þarf að staðsetja viðkomandi eign, er hún meðaleign, betri eða verri og setja endanlegt verð á eignina í samræmi við það.

Þegar endanlegt verð er ákveðið þarf alltaf að taka markaðsaðstæður til hliðsjónar, því það er þegar upp er staðið alltaf markaðurinn sem ræður kaupverðinu.

Í seljandamarkaði er yfirleitt í góðu lagi að prófa aðeins verðið, ef það er of hátt þá leiðréttir það sig eftir smá tíma.  Á kaupandamarkaði eru 2 leiðir sem hafa skilað bestum árangri.

Verðleggja eignina hárrrétt, skoða tölfræðina og setja rétt verð á eignina miðað við það. 

Verðleggja eignina rétt undir, þessi aðferð virkar mjög vel á kaupendamarkaði og er líklegri til að laða að fleiri kaupendur og að eignin seljist hraðar

Þriðja leiðin er síðan að setja draumaverð seljandast á eignina, rökin hérna eru að eignin er einstök og það sé ákveðinn kaupandi að bíða eftir þessari eign og er tilbúinn að greiða hærra verð fyrir hana.  Á kaupandamarkaði virkar þessi aðferð hins vegar mjög sjaldan.

 


Aðrar færslur