mánudagur 12.10.2020

Fasteignamarkaðurinn í miðri Kórónuveiru

Núna erum við eina ferðina enn í hringiðu Covid og ég held að það sé óhætt að segja að þetta ástand sé komið til að vera í óskilgreindan tíma og það þýðir því ekkert annað en að spritta og brosa í gegnum grímuna.

Það kom flestum á óvart hvað sumarmarkaðurinn varð gífurlega öflugur. Ég hef verið fasteignasali í 17 ár og farið í gegnum ýmsar hæðir og lægðir en ekki upplifað svona sumarmarkað áður.

Við teljum að það séu nokkrar ástæður fyrir honum

1.     Sögulega lágir íbúðavextir auka kaupgetu kaupenda

2.     Margir voru búnir að selja og urðu að kaupa

3.     Eftir nokkra vikna Covid ládeyðu á markaði fóru allir af stað á sama tíma.

Spurning dagsins er því erum við að sigla inn í annan svona hring. Það eru miklar samkomutakmarkanir núna og margir vilja því halda sig heima. Við erum hins vegar búin að þróa góð ferli til að tryggja öryggi í fasteignaviðskiptum.

1.     Við sendum rafræna upplýsingabæklinga fyrir skoðun þannig að við þurfum ekki að afhenda gögn í sýningum

2.     Forbókanir í opin hús og bókað inn á 15 mínútna fresti til að tryggja 2ja metra regluna og litla nánd

3.     Rafrænar undirritanir þannig að kaupendur og seljendur geta skrifað undir tilboð heima hjá sér í staðinn fyrir að koma á skrifstofuna.

Okkar ráðlegging til allra í fasteignahugleiðingum er að halda sínu striki. Það er í raun mun þægilegra að stunda fasteignaviðskipti þegar færri eru að skoða. Það eru færri kaupendur á ferðinni sem þýðir minni líkur á tilboðsstríði og það eru færri eignir að koma inn akkúrat núna sem þýðir minni samkeppni fyrir seljendur.

Þó að við séum stödd í hringiðunni akkúrat núna þá gengur þetta ástand yfir fyrr en síðar en á meðan skulum við passa okkur eins og við getum og treysta því að aðrir geri það líka. Brosum, munum handþvottinn, spritta og 2ja m. Regluna og að sýna gagnkvæma tillitssemi.

Ef þig langar að vita meira eða hefur spurningar varðandi fasteignamarkaðinn, hafðu þá samband við okkur hjá Húsaskjóli, hlökkum til að heyra frá þér.


Aðrar færslur