mánudagur 26.10.2020

Keðjueignir

Síðustu árin hefur verið góð sala og margir seljendur sem eiga eftir að selja velja að gera tilboð með fyrirvara um sölu og hafa síðan 30 daga til að selja sína. Það er gott að hafa ábakvið eyrað að þegar kaupendur velja að hafa belti og axlabönd þá þarf einhvers staðar að gefa eftir.

Það er erfitt að tryggja sér draumaeignina og selja sína eign á toppverði án þess að taka neina áhættu. Þannig að þeir sem velja að kaupa fyrst og selja svo þurfa að hafa ákveðin sveigjanleika. Yfirleitt er þessi sveigjanleiki fólginn í endanlegu kaupverði. Það er einfaldlega ekki hægt að bjóða miðað sína ítrustu kaupgetu og ætla svo að selja á hæsta mögulega verðinu miðað við bestu mögulega skilmálana á 30 dögum. Þess vegna ráðleggjum við kaupendum alltaf að hafa borð fyrir báru. Að hafa möguleika á að lækka verðið á sinni fasteign ef ekkert gerist á 2-3 vikum.

Það er engin eyland þegar eignakeðja myndast. Þá geta verið allt að 5-6 fjölskyldur sem eru að gera ákveðnar skuldbindingar og jafnvel flytja börn í nýjan skóla og leikskóla sem treysta því að allir í keðjunni séu að gera sitt besta. Oft þarf að gera tilslakanir í greiðsluskilmálum og afhendingu til að keðjurnar gangi upp.

Við getum því aldrei litið á stakt tilboð í eignakeðju sem það sé meitlað í stein og gífurlega mikilvægt að þeir sem koma á eftir fyrstu eigninni geri sitt ítrasta til að láta hana ganga upp. Það getur t.d. falið í sér að undirbúa eignina mjög vel og setja hárrétt verð á hana strax í upphafi. Einnig mælum við með því að nýta alla þjónustuþætti sem fasteignasalan býður upp á, s.s. stílista, fagljósmyndara og samfélagsmiðlaherferðir til að auka líkurnar á því að salan gangi hratt og vel fyrir sig.

Þetta er ekki tíminn til að kanna markaðinn.

Ef seljendur vilja hafa tíma til að þreyfa á markaði þá mælum við alltaf með því að selja fyrst og kaupa svo. Þá þarf ekki að taka tilboði sem seljandinn er ósáttur við og að sama skapi verður hann mun fýsilegri kaupandi þegar hann býður í eign.

Ef þig langar að vita meira eða hefur spurningar varðandi fasteignamarkaðinn, hafðu þá samband við okkur hjá Húsaskjóli, hlökkum til að heyra frá þér.


Aðrar færslur