sunnudagur 10.05.2020

Hvernig ertu besti kaupandinn?

Við fáum oft spurninguna

“hvernig á ég að tryggja mér draumaeignina?”

Ég mæli alltaf með því að byrja á því að fara í greiðslumat. Þá veistu upp á hár hvað þú mátt kaupa dýra eign og getur sparað bæði tíma og orku með því að leita eingöngu að eignum sem falla innan þinnar greiðslugetu.

Það tekur nokkrar mínútur í dag að fá bráðabirgðagreiðslumat í gegnum heimasíður bankanna. Þegar það er komið getur leitin að réttu eigninni hafist.

Kaupendur byrja hinsvegar oftar á því að finna réttu eignina og leggja síðan inn tilboð með fyrirvara um greiðslumat. Þá kemur því miður oft í ljós að greiðslugetan er ekki alveg jafngóð og kaupandinn reiknaði með. Það geta verið allskonar þættir sem spila inn í. Allar skuldbindingar kaupanda eru teknar með í útreikningana. Raðgreiðslur, yfirdrættir, námslán, bílalán og það vegur einnig mjög þungt ef hjón eiga 2 bíla. Í dag er lánshæfismat einstaklinga einnig skoðað og fólk með góða greiðslugetu og góð laun getur fengið höfnun á greiðslumati ef lánshæfismatið er lélegt.

Hægt er að skoða sitt lánshæfismat inn á mittcreditinfo.is og ef það er lágt getur þú byrjað á að skoða hvað veldur og fengið ráðleggingar í þínum viðskiptabanka hvernig  er hægt að bæta það.

Það er ekki óalgengt að fólk sé tilbúið að teygja sig ansi langt til að klára málið þegar draumaeignin er fundin. Kannski þarf að fá smá yfirdrátt, kannski dýrara lán til að brúa bilið. Þessi lán geta verið kostnaðarsöm til lengri tíma.

Kaupandi sem er búinn að fara í greiðslumat er einnig betri og öruggari kaupandi. Seljendur eru oft tilbúnir að taka aðeins lægra tilboði frá kaupanda  sem þarf hvorki að gera fyrirvara um greiðslumat eða sölu því hann er öruggari kaupandi og hægt að ganga hraðar frá kaupsamningi.

Með því að vera tilbúinn að kaupa getur þú því stundum gert lægra tilboð en sá sem er ekki tilbúinn og þannig sparað þér bæði fjárhæð í útborgun sem og tekið lægra húsnæðislán.

Ef þú ert með staðfest greiðslumat þá veit seljandinn að þú getur ekki boðið hærra og vill mögulega ganga til samninga þar sem hann veit að þú ert að gera þitt besta boð.

Kaupendur geta því hæglega sparað sér eina til tvær milljónir á því að vera eins vel undirbúnir og þeir geta.


Aðrar færslur