fimmtudagur 24.03.2022

Hvað er líkt með fasteignamarkaðnum og Tinder?

1.    Ekki kaupa bara eitthvað:

Þegar ég var búin að vera einhleyp í of langan tíma að mati almennings var helsta ráðið sem ég fékk: “Þú verður að finna þér kærasta og þú verður að lækka standardinn. Ekki vera svona kröfuhörð”. Núna heyri ég þetta sem ráðleggingu fyrir fyrstu kaupendur. Þú verður að koma þér inn á markaðinn með góðu eða illu. Það er hins vegar dýrt að kaupa og selja og því gífurlega mikilvægt rétt eins og með framtíðarmaka að vera viss um að eignin sem þú kaupir henti þínum þörfum og þú getir verið í henni eins lengi og þig langar til, ekki að þú þurfir að velja eftir 6 mánuði af því að hún passar þér engan veginn (þá er nú minna vesen að finna sér nýjan maka).

 

2.    Góður undirbúningur er gulls ígildi:

Þegar ég var á Tinder þá eyddi ég góðum tíma í að undirbúa prófilinn minn. Ég valdi myndir sem endurspegluðu mig og mín gildi og skrifaði lýsinguna mína. Ég eyddi engum tíma í að skoða prófíla sem voru með eina mynd eða enga og enga lýsingu, hreinlega nennti því ekki. Sama gildir þegar þú ert að selja þó að markaðurinn sé á útopnu. Þú þarft að undirbúa eignina, minnka dótið. Það þarf að taka góðar myndir, vanda lýsinguna og markaðssetja eignina rétt. Þú vilt ekki að bara einn kaupandi sjái eignina. Þú vilt ná til sem flestra og auka þannig líkurnar á því að þú seljir hratt og vel.

 

3.    Það er alltaf samkeppni á fasteignamarkaði:

Þegar þú skráir þig á Tinder þá ertu að keppa við alla aðra sem eru skráðir á Tinder um athygli. Sama gildir um fasteignina þína. Þó að það séu sögulega færri eignir til sölu í hverri viku en áður þá koma inn nýjar eignir daglega og framboðið er stöðugt að aukast. Þú vilt fanga athygli kaupendanna, ekki að nýja eignin sem var að koma í sölu steli allri athyglinni.

 

4.    Þú verður að vita hvað þú vilt:

Hvort sem þú ert í makaleit eða fasteignaleit er mikilvægt að vita hvað þú vilt. Það er tímafrekt fara á mörg deit og reyna að finna rétta makann, sama gildir um draumaeignina ef þú ert ekki búinn að setja niður þínar þarfir. Ég mæli því með því að byrja á því að fara í greiðslumat, vita hvað þú mátt kaupa fyrir. Skrifa niður hvað skiptir mestu máli við nýju eignina, hvaða eiginleika þarf hún að hafa. Elsti sonur minn er að kaupa sér fasteign. Þegar við vorum búin að skoða 2 eignir sá hann að hann vildi víkka út svæðið sem hann vildi búa á sem og hann þyrfti fleiri fermetra en hann reiknaði með upphaflega.

 

5.    Áttu eftir að selja?

Alveg eins og með Tinder þá er mikilvægt að vera búinn að klára ákveðna grunnvinnu þegar kemur að fasteignakaupum og sölu. Fyrir Tinder er gífurlega mikilvægt að vera búinn að klára skilnaðinn eða amk láta maka sinn vita að hugurinn stefnir annað. Á núverandi markaði er mjög erfitt að kaupa eign ef það á eftir að selja eign. Þarna gildir að vera undirbúinn. Vera búinn að fara í greiðslumat, vera búinn að fá verðmat á sína eign og hafa hana alveg tilbúna í sölu til að verða betri kaupandi þegar draumaeignin finnst.

 

6.     Ekki verða of örvæntingarfullur:

Stundum tekur það tíma að finna réttan maka alveg eins og fasteign. Hins vegar ef þú mætir á deit með það markmið að næsta deit verði framtíðarmakinn þinn er það ekki líklegt til árangurs. Ekki frekar en þú ákveður að kaupa næsta hús sem kemur til sölu í hverfinu. Þá gætir þú litið framhjá viðhaldi sem er kostnaðarsamt. Að húsið hafi færri herbergi en þú þarft og að bílskúrinn sem kallinn hlakkaði svo til að dunda sér í er í raun bara bílskýli. Stundum er betra að taka eitt skref til baka og bíða aðeins lengur.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402Aðrar færslur