sunnudagur 01.03.2020

Fasteignamarkaðurinn - Mars 2020

Árið fer vel af stað. Samkvæmt tölum frá Þjóðskrá Íslands er hlutfall fyrstu kaupenda á síðasta ársfjórðungi 2019 29%. Það eru góðar fréttir og í takt við okkar reynslu að litlar íbúðir seljist mjög vel þessa dagana.

Verð er í jafnvægi og hækkun á vísitölu íbúðaverðs síðustu þrjá mánuði er 0,3%. Það segir okkur að það hefur sjaldan verið jafnmikilvægt að setja rétt verð á eignina strax í upphafi.

Mánaðarvelta á milli ára er mjög svipuð. Síðast liðin janúar var 775 samningum þinglýst samanborið við 789 samninga í fyrra.

Tillaga um ástandsskýrslur og viðhaldsbók liggur núna fyrir á Alþingi. Það er gífurlega mikilvægt að fá þetta í gegn þar sem það mun auka öryggi í fasteignaviðskiptum til muna. Fasteignaviðskipti eru yfirleitt stærstu einstöku viðskiptin sem einstaklingar og fjölskyldur taka þátt í á ævinni og þetta mun bæði eyða óvissu sem og óþarfa deilu- og dómsmálum. Enn fremur verður ástand eignarinnar öllum kunnugt áður en kauptilboð verður gert og því auðveldara að meta hvað á að greiða fyrir viðkomandi eign.

Það er einnig gagnleg nýjung að aðilar sem framkvæma ástandsskoðun fyrir sölu verði ábyrgir fyrir sínum skýrslum og að þeir þurfi að hafa skaðabótatryggingu. Í dag er það einfaldlega ekki þannig.

Stórar eignir hafa einnig verið að seljast mjög vel og 2 dæmi í fréttum um mjög dýr hús sem hafa verið að seljast. Annars vegar 360.000.000 kr. hús í Garðabæ og hins vegar 265.000.000 kr. hús í miðbænum.

Þannig að okkar mat er að markaðurinn er í jafnvægi og því góður tími bæði til að kaupa og selja fasteign.

Allt þetta segir okkur að það er góður tími til að kaupa draumaeignina.


Aðrar færslur